Handgerðar eftirgerðir

Rúna K. Tetzschner handgerir stundum eftirgerðir af eigin listaverkum og notast þá við prentlistina jafnt sem eigið handverk. Valdar myndir eru prentaðar í takmörkuðu upplagi, yfirleitt ekki fleiri en 100 eintök af hverri gerð.

Eftir prentun handskreytir Rúna hvert einasta eintak á sama hátt og frummyndirnar. Þær eru málaðar með fíngerðu glimmeri og duftlitir, t.d. gull, silfur, platín, brass, kopar og perlusilfur, eru bræddir á með sérstöku hitatæki. Í raun er um að ræða sambland af útgáfu og handverki og felur framtakið í sér frumkvöðlastarf og nýsköpun.

Viðlíka aðferðir voru notaðar við upphaf prentlistarinnar en þá voru myndskreytingar, svokallaðar lýsingar, prentaðar með textum og jafnan handskreyttar eftir prentun eða verkið fullgert með listrænu handverki eftir prentun.

Fyrirmynd Rúnu er þó ekki sótt til hinna fornu aðferða og skyldleikinn við þær er tilviljun.

Tilgangur Rúnu með því að handskreyta eftirgerðir af eigin myndum er að gera öllum kleift að eignast lítið listaverk.

Prentunin hefur þó í för með sér ákveðinn kostnað og vinnan við að handskreyta myndirnar eftir prentun er umtalsverð, í sumum tilvikum tekur hvert eintak margar klukkustundir.

Engu að síður flýtir prentunin fyrir myndsköpuninni og því er mögulegt að lækka verðið á eftirgerðunum þannig að allir geti haft efni á að kaupa sér svolítið listaverk.

Kostnaður og tími

Til samanburðar má geta þess að það tekur Rúnu 2-14 daga að gera frummyndirnar og fer tímalengdin eftir umfangi og stærð hverrar myndar.

Frummyndir eftir Rúnu hafa kostað á bilinu 20.000 - 200.000 kr. Handskreyttu eftirprentanirnar eru hins vegar seldar á einungis 3.000 - 12.000 kr.

Upphaflega voru myndirnar útbúnar á sérstökum gjafakortum til að ramma inn. Þegar fram liðu stundir varð vinnan við að handgera kortin þó of mikil, samfara kostnaði, en verðið sem fékkst fyrir þau var ávallt of lítið.

Árið 2010 var horfið alfarið frá því að útbúa myndirnar á kort en nýjar gerðir fást sem myndir til innrömmunar.

Eldri gerðir eru fáanlegar á kortum en seljast smám saman upp.