Þorgeir Rúnar Kjartansson (1955-1998) myndlistarmaður og ljóðskáld


La Vallée du Bonheur (Sæludalur)

Vjer sátum tveir við tímans skraf
og teyguðum vín af skálum.
Þinn draumur var hið dýpsta haf;
það draup af hrærðum sálum.
Og klukkur sungu um sólarlag,
vjer supum fastar, meira.
Við orðkynnginnar aldaslag
var ærið margt að heyra.

© Þorgeir Rúnar Kjartansson
Úr Sæludölum og Sorgarfjöllum í bókinni Óður eilífðar. Ljóðið er prentað aftan á kortið að ofan (neðst til vinstri).

Listaverkakort með myndum og ljóðum

Gengur hann um göturnar

Gengur hann um göturnar með saxófóninn sinn
svakalega mikið er það gaman.
Hann er kominn hálfa leið og allaleiðina inn
og ótrúlega frjótt að dansa saman.

Það drýpur af trjánum eitt dásamlegt regn
ó Drottinn minn – þetta er mér gjörsamlega um megn.
Og stelpurnar svo fínar með fínu brjóstin sín
og fljúga einsog spóar allaleið til mín.

Við verðum að reyna að rugla þetta geim
renna inní vorið og fljúga saman heim.
Heim til okkar! okkar! okkar!
ósköp eru sætir þessir silfureyrnalokkar.

Svo hoppum við um göturnar og syngjum þennan söng:
sætar eru píurnar og gljúfrin eru þröng.
Æðum gegnum myrkrið og inní þetta ljós
ætli þar finnist rúbbídúbbírós?

© Þorgeir Rúnar Kjartansson

saxófónleikari, myndlistarmaður, skáld og sagnfræðingur

Óður eilífðar

 • Hér má sjá listaverkakort sem gefin voru út í tengslum við útgáfu bókarinnar Óður eilífðar eftir Þorgeir Rúnar Kjartansson. Hver gerð var einungis prentuð í 100 eintökum. Kortin eru með flipa í brotinu 15x21 (útflött 21x30). Myndir eftir Þorgeir eru prentaðar á framhlið kortana og á sumum fylgir ljóð með á bakhlið. Bæði ljóð og myndir eru úr Óði eilífðar.
   
 • Leggið bendlinn yfir myndirnar til að fá fram frekari upplýsingar og smellið á þær til að sjá stærri útgáfu af þeim.
   
 • Hægt er panta á netfangið ljosajord@hotmail.com
    

Tilboð:

 • Stök kort: 300.-
 • eða:
 • Öll kortin saman í pakka, 13 st.: 2.950.-
  (50% afsláttur).

Ættjarðarljóð

Gósenland gleðinnar
guðsblessunar,
fósturjörð freðinnar
fiskafurðar.
Ísland með álverin
eflist á jörð.
Og stoltur stríðsherinn
stendur þar vörð.

Allt er þar undra gott,
ekkert er vont.
Aldrei sér æðru vott,
enn síður mont;
réttsýnir ráðherrar
ríkja í sátt,
ljúfastir ljósberar
lifa þar dátt.

 © Þorgeir Rúnar Kjartansson
Ljóðið er úr Óði eilífðar og er prentað aftan á kortið að neðan.
 

Ljóðið til vinstri er úr bókinni Óður eilífðar og er einnig prentað aftan á kortið með teikningu Þorgeirs af tónlistarmönnunum sem sjá má fyrir ofan ljóðið.

Þorgeir Rúnar Kjartansson - handskrift