Logafjöll og ljósadans - Rúna K. Tetzschner sýnir í kjallara L51 Art Center 31. mars - 30. apríl 2012

Skrautskrifuð ljóð

Hluti sýningarinnar er helgaður ljóðamyndum.

Má þar einkum sjá ljóð sem Rúna hefur skrautritað eftir sjálfa sig, en einnig ljóð eftir Elísabetu Jökulsdóttur og Gunnar Dal (1923-2011.

Þá getur á sýningunni að líta ljóð Rúnu í enskum þýðingum Guðlaugs Kristins Óttarssonar og Emblu Eir Oddsdóttur.
 

Logafjöll og ljósadans er heitið á myndlistarsýningu Rúnu K. Tetzschner í kjallara L51 Art Center, Laugavegi 51. Sýningin stendur út apríl.

Norðurljós og eldfjöll eru áberandi í myndunum á sýningunni og þar eru einnig skrautrituð ljóð og lýsingar í anda fornra handrita.

Töfraraunsæi

Myndir Rúnu hafa á sé ævintýra- og töfrablæ, og má kenna myndlist hennar við töfraraunsæi (magical realism) eða andlega list (spiritual art).

Risastórt skrautfiðrildi sveimar um yfir glóandi hrauninu og hugrökk eldkona laugar sig í vatninu við gosið. Ljósverur og verndarenglar skrýðast norðurljósum og töfrandi fiskibátar sigla yfir himininn.

Allt þetta og margt fleira má sjá í myndlist Rúnu.

Ljóðaseiður: Friðríkur og Rúna

Við opnunina 31. apríl var framinn ljóðaseiður og flutti Rúna þá ljóð eftir sig af sýningunni og einnig "Eldviðrið", þátt úr óútgefnum ljóðabálki sínum í anda fornra eddukvæða. Rúna las við söng og gítarleik tónlistarmannsins Friðríks og var söngurinn allsérstæðan undirleikur við lesturinn.

Litir bræddir á pappír

Flestar myndirnar á sýningunni eru frá tímabilinu 2008-2011, gerðar með blandaðri tækni sem Rúna hefur þróað síðan 1999. Um er ræða tússlita- og vatnslitamyndir unnar með pennum og penslum á pappír og glitrandi duftlitir, svo sem gull og silfur, eru bræddir á pappírinn með sérstöku hitatæki.

Rúna var í galleríinu fyrstu vikuna í apríl. Gafst gestum þá tækifæri til að kynnast hinni sérstæðu tækni hennar.

Rúna K. Tetzschner

Rúna er íslenskufræðingur að mennt og starfaði árin 1996-2008 sem sérfræðingur og kynningarstjóri á Þjóðminjasafni Íslands. Samhliða því starfaði hún við listsköpun, ritlist, myndlist og skrautritun, og rak Ljós á jörð, forlag og listrænt fyrirtæki.

Rúna er höfundur fræðibóka, ljóðabóka, barnabókar og annars barnaefnis. Hún stundaði einnig nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík árin 1977-1983 og 1992 og hefur notið leiðsagnar Gunnars S. Magnússonar myndlistarmanns.

Árið 2008 tók Rúna þá ákvörðun að helga sig listum og markaði dvölin í listamannahúsi á afskekktri eyju undan Jótlandsströndum upphaf þessa nýja tímabils. Síðan þá hefur hún flakkað milli landanna tveggja, búsett á Íslandi en dvelur langdvölum í Danmörku.

 

Danmörk og Ísland

Erlendis hefur myndlistin orðið helsta tjáningarform Rúnu á sviði listsköpunar. Hún hefur því einkum starfað við myndlist síðustu þrjú árin og hefur haldið og tekið þátt í fjölda sýninga víðs vegar um Danmörku, þó einkum á Norður-Jótlandi (í nágrenni Álaborgar).

Á ferðalögum sínum um Danmörku hefur hún verið ötul við að kynna Ísland og íslenska menningu. Auk sjálfrar sín hefur hún verið með fjögur íslensk ljóðskáld í farteskinu (sbr. að ofan). Hún hefur einnig stofnað íslensk-danskan listamannahóp og gallerí í samstarfi við íslensku listakonurnar, Önnu K. Jóhannsdóttur (keramiker og myndlistarmann) og Erlu Poulsen Kjartansdóttur (myndlistarmann) sem báðar eru búsettar í Danmörku.

Samtímis sýningunni í L51 Art Center sýnir Rúna nú á þremur stöðum í Danmörku, á norænni samsýningu, Fokus på Island, í menningarhúsinu Trekanten í Álaborg og í Gallerí Hou, sem staðsett er við austurströnd Norður-Jótlands, norðan Limafjarðar.