Ljóð og listaverk eftir Þorgeir Rúnar Kjartansson - Heildarsafnið Óður eilífðar

Í bókinni Óður eilífðar er heildarsafn kraftmikilla ljóða eftir Þorgeir Rúnar Kjartansson (1955-1998), fagurlega myndskreytt með listaverkum höfundarins og níu annarra myndlistarmanna.

Í ljóðagerð sinni sækir Þorgeir jafnt í hið gamla sem hið nýja af listfengi og hugkvæmni. Ljóð hans spanna sárbeittustu ádeilu, dýpstu trúarinnlifun, óvægnasta níð, innilegustu ástartjáningu, – og allt þar á milli. Þau sýna mikla breidd ljóðskáldsins og eiga brýnt erindi til samtímans.

Höfundurinn var sagnfræðingur og kennari og einnig fjölhæfur listamaður sem meðal annars stofnaði hljómsveitina Júpiters, lék á saxófón, orti, teiknaði og málaði.

Auk mynda eftir Þorgeir prýða bókina listaverk eftir Hannes Lárusson, Halldór Ásgeirsson, Tómas Ponzi, Friðrík, Erlu Þórarinsdóttur, Rúnu K. Tetzschner, Gunnar S. Magnússon, Sigurð K. Þórisson og Steingrím Eyfjörð.

Verkinu er fylgt úr hlaði með 40 síðna inngangi eftir Guðmund Andra Thorsson og Rúnu sem jafnframt annaðist ritstjórn og myndaritstjórn.

Bókin í heild er 384 síður, innbundin og öll í lit.

Ljóðum Þorgeirs og myndum var safnað saman í hátíðarútgáfuna Óð eilífðar sem kom út hjá forlaginu Ljós á jörð 6. nóvember 2008, 10 árum eftir andlát höfundarins. Þá hafði meirihluti efnisins ekki verið gefinn út áður.

Ljóðasafnið skiptist í fimm hluta: 1. Veðraspá, 2. Sæludalir og Sorgarfjöll, 3. Sólaris – Pólaris, 4. Sálmar og 5. Þar sem það er séð.

Ljóðin í 1. og 4. kafla höfðu ekki komið út á bók áður. Undir titlunum Sæludalir og Sorgarfjöll og Sólaris – Pólaris í 2. og 3. kafla var efnið aukið um ríflega tvo þriðju frá því sem var í samnefndum ljóðabókum árið 2003.

löngum var það misjafnlega skakkt


löngum var það misjafnlega skakkt
óvenjulega ótrúlegt
grimmilega sjúkt
mildilega gjörtapað og sigrað 

en það var ekki okkur að kenna

þar sem aldan faðmar
fimm milljón ára grjót
í eitt andartak
og slettist ögn í grasið
og lykt af rotnandi þangi hafi og skeljum
þenur vit okkar út í ást 

vil ég finna sjórekna flugmiða
og ávísanir á ófundnar eyjar

 
© Ljóð: Þorgeir Rúnar Kjartansson

Loks birtust flestöll ljóð 5. kaflans, Þar sem það er séð, í bók undir sama nafni árið 1997. Þó var einnig í þeim hluta bætt við ljóðum.

Svo vildi til að bókin var í umbroti þegar hrunið varð á Íslandi og kom út réttum mánuði síðar. Mörg ljóðanna þar sem deilt er á auðhyggjuna eiga einstaklega vel við tíðarandann núna, nánast eins og þau hafi verið ort um það sem gerðist.

Nú yrkja fleiri skáld ádeiluljóð sem hæfa kreppunni en Þorgeir Rúnar Kjartansson var sá fyrsti. Ljóðasafnið Óður eilífðar markaði því ákveðið upphaf.

Sýnishorn af ljóðum og myndum úr bókinni og kynningu á efninu má nálgast með því að smella á flýtihnappana að ofan til vinstri.

Nokkrar myndir og ljóð hafa jafnframt komið út á listaverkakort.

Hópreið lemúranna og Kór byltingarinnar

Óður eilífðar var heiti samstarfsverkefnis fjölda listamanna, vina og velunnara Þorgeirs Rúnars Kjartanssonar, undir forystu Rúnu K. Tetzschner.

Verkefnið var myndað kringum útgáfu á verkum Þorgeirs og fól í sér ljóðlist, myndlist, tónlist, söng og leiklist. Hámarki náði það með Óði eilífðar, tónleikum og leikrænu upplestrarkvöldi í Iðnó, við útkomu samnefndrar listaverka- og ljóðabókar.

Undirtitill uppákomunnar, Byltingarkennd hátíðardagskrá, vísaði einkum í galdraheimsádeilukvæði Þorgeirs, Veðraspána, sem myndar 1. kafla ljóðasafnsins. Mætti halda að það hefði verið samið sem spá um hrun auðvalds og spillingarvalda, tuttugu árum áður en áfallið dundi yfir íslensku þjóðina.

Í kjölfar hrunsins á Íslandi gerðu listamennirnir sem tóku þátt í Óði eilífðar samtímaádeilunni sérstök skil í túlkun sinni og mæltist það vel fyrir.

Annað merkilegt verk, Sálmarnir, myndar fjórða kafla bókarinnar og er um að ræða trúarlegt kvæði í anda Hallgríms Péturssonar.

Frá því þessi verk, Veðraspá og Sálmar, urðu til, lá í loftinu að samin yrði við þau tónlist. Þorgeir hafði imprað á slíku við samstarfsmenn sína í Júpiters og hélst umræðan lifandi eftir að hann dó.

Í tilefni af útkomu heildarsafnsins Óður eilífðar samdi Hörður Bragason, tónskáld og orgelleikari, tónverk við Sálmana sem Marta Guðrún Halldórsdóttir sópransöngkona flutti ásamt þeim Herði, Steingrími Eyfjörð gítarleikara (1960-2009), Birgi Bragasyni bassaleikara, Eiríki Stephensen saxófónleikara og Einari Jónssyni básúnuleikara.

Einnig fluttu Hörður og Marta Guðrún tónverk Þorkels Sigurbjörnssonar tónskálds við ljóð Þorgeirs "Við skulum bara vera blóm".

Þessir og fleiri félagar úr Júpiters stofnuðu hljómsveitina Hópreið lemúranna sem samdi tónverk við Veðraspána. Innan Hópreiðar lemúranna starfa margar minni hljómsveitir sem tóku fyrir mismunandi kafla hinnar mögnuðu heimsádeilu.

Aðrir í Hópreið lemúranna voru Kristinn H. Árnason gítarleikari, Halldór Lárusson trommuleikari, Snorri Valsson trompetleikari og Þórarinn Kristjánsson slagverksleikari (Tóti). Lemúrarnir fluttu tónverk sitt, Veðraspána, við samnefnt heimsádeilukvæði Þorgeirs, ásamt Rúnari Guðbrandssyni leikara, Kór byltingarinnar og Mörtu Guðrúnu Halldórsdóttur. Kór byltingarinnar sem einnig var stofnaður í tilefni kvöldsins flutti líka ljóðið Ísland harmkvæla hjóm eftir Þorgeir.

Hljómsveitin Júpiters lék enn fremur og með þeim lék einnig Rúnar Gunnarsson saxófónleikari.

Aðrir sem komu fram um kvöldið voru Guðmundur Andri Thorsson sem sagði frá Sálmum Þorgeirs og skáldin Ófeigur Sigurðsson og Rúna K. Tetzschner sem lásu upp ljóð Þorgeirs.

Rúna K. Tetzschner var framkvæmdastjóri og útgáfustjóri verkefnisins Óður eilífðar. Hörður Bragason stýrði tónlistarhluta verkefnisins ásamt Steingrími Eyfjörð Guðmundssyni.