Sæludalir og Sorgarfjöll - sýnishorn úr 2. ljóðakafla bókarinnar Óður eilífðar eftir Þorgeir Rúnar Kjartansson

Give peace a chance


Að búast til varnar og blása til sóknar
að berja á trumbur og reka upp öskur.
Að rembast við lífsgátur langar og flóknar
að leggjast í sukkið og tæma þar flöskur
er ægilegt puð, þar fór allur minn kraftur
og ég óska að ég þurfi ekki að gera það aftur.

Að standa í deilum og stælum við aðra
fá stungur í bakið og kulda í blóðið
að þenja sig æfan sem blásin sé blaðra
að berjast við skáldsögu, ritgerð og ljóðið
er ægilegt puð, þar fór allur minn kraftur
og ég óska að ég þurfi ekki að gera það aftur.

Ef fengi ég aðeins frið og ró
til að fella vopnin og reima skó,
þerra burt tárin og þurrka af borðum
og þegja með nýjum sprengikraftsorðum.

 

Nú angar suðrið sæla mildum litum


Nú angar suðrið sæla mildum litum
úr sjónum allar hafmeyjarnar rísa
og flykkjast heim í fögnuð álfa og dísa
að fósturjarðar minnar björtu ritum.

Bláfjólur roðna í birkiskógi hvítum
blessað sé heilahvelið sem mig skóp.
Vorboðinn hrjúfi grær í gulum spýtum
og getur kvakað heimsins dýpsta óp.

Fuglinn trúr sem fer um vegaleysur
og fyllibyttur heims í ljótum króm
sem ganga um í gervileðurskóm
og gera margar skelfilegar hneisur
þröstur minn góður þetta er ekkert grín
þú átt ekki að drekka svona dreggjafúlt vín.
Einhverntímann verð ég þar sem rauður skúfur skín.

Og ástin mín er innilega fögur
hún angar líktog fljót í draumsins ró
er flýtur gegnum flauels mýktarkögur
sem fossar einsog hátíð útí sjó.
Ég sakna hennar svakalega mikið
ég sakna hennar meir en orð fá tjáð
og aldrei verður innsta loforð svikið
og aldrei verður endimörkum náð.

 

Vetrarskynjun


Vetur er genginn í garð og þú
ert guðdómleg skynjun dauðlegs manns.
Snjórinn er tærfallinn einsog trú
á tilverknað okkar og Skaparans.

Kvöldið er sigið á og sú
svefnhöfgi blíða er fylgir því
verkar á þig í þúsund nú
þannig að vakan er fyrir bí.

Svo kemur nóttin og nærir þig
og nær mun hún færa þig og mig.
Og svo kemur morgunn með svarið sitt:
Sælt er að elska og gera hitt.

© Ljóð og myndir fyrir neðan: Þorgeir Rúnar Kjartansson

ísland harmkvæla hjóm


ísland harmkvæla hjóm
og heimskunnar vansæla móðir!
hér er þitt bílanna bruðl
bullið og mannskepnan verst
allt er í heiminum okrað
og stund þinna verksmiðjuvona
vælir sem út borið barn
langt fram af horfinni öld
landið er fagurt og frítt
og fannhvítar jöklanna breiður
himinninn misjafn og blár
hafið er ólgandi og bjart
en nú eru feðurnir feigu
fláttskaparmerðirnir smáu
á leið oní hyldýpishaf
héðan og sjást ekki meir
ó! reisum oss byggðir og bú
og blómgum í dalanna skauti
aukumst að íþrótt og frægð
unum svo happý við vort
hátt á öskjuhlíð upp
hvar ennþá auðkúlan hringsnýst
yfir örbirgð og þraut
ástleitnum feðrunum stóð
þar stóð mér eittsinn og ástin
olli mér botnlausum svima
þar komu didda og dís
dúlla og gússí og ögn
þá riðu hetjur og hjörtu
og skrautbúnar skjátur sem draumur
flaut þar hið fríðasta lið
færandi vonina heim
það er svo bágt að standa í stað
og mönnunum munar
annaðhvort aftur á bak
ellegar nokkuð á leið

HVAÐ Í ANDSKOTANUM ER VERIÐ AÐ RUGLA?

æ göngum nú áfram til góðs
– já þarf ég að endurtaka til góðs?
götuna fram eftir veg
ekki þarf að lýsa landinu
en eitt er víst:
alþing er horfið af braut
þeirrar réttsýni og góðgirni
sem einfeldningurinn
jón okkar sigurðsson trúði á
og ekki aðeins það:
orðið búð hefur fengið nýja merkingu
og sýnu verri en forðum
og lyngið á landinu helga
súrnar af regni hvert ár
og áfram er haldið þessum ljóta leik
ó þér jeppa og jábræðra fjöld
og íslands ófullburða synir
svona er æskunnar ást
ötuð af lygi og saur

© Ljóð: Þorgeir Rúnar Kjartansson