Sálmar - sýnishorn úr 4. ljóðakafla bókarinnar Óður eilífðar eftir Þorgeir Rúnar Kjartansson

© Gunnar S. Magnússon: Myndlist; mynd birt við ljóð eftir Þorgeir Rúnar Kjartansson í bókinni Óður eilífðar 2008

Um sálunnar ágætan vitjunartíma

[...]
Löngum var líf í klemmu
lítil var rauna bót.
Í guðlausri girnd og remmu
gekk eg þá öllu mót.
Mörg var þá písl og mæða
mitt var þá traustið smátt.
Hugur ei sá til hæða
né hugði sér æðri mátt.


Upp hófst þó bænin aptur
af lagðist harma flökt.
Heilagur kynngi kraptur
kætti mitt hjarta snöggt.
Líkast sem logum streymdi
lífæðar gleðin um.
Stað þá og stund eg gleymdi
í stórfengum vitrunum. [...]


© Mynd: Gunnar S. Magnússon • © Sálmur: Þorgeir Rúnar Kjartansson
 

© Gunnar S. Magnússon: Myndlist; mynd birt við Sálm eftir Þorgeir Rúnar Kjartansson í Óður eilífðar 2008

Aflið

[...]
Kærleikans fasti klettur
kýs eg að vera þinn
sem oss er yfir settur
algóður Lausnarinn.
Stund er og staðurinn
til þess að iðrast aumur
enda mun tími naumur.
Brátt verður bardaginn.


Enginn veit sögu sinnar
sannlega hinstu lykt.
Málalok mannsævinnar
munu þó lögð á vikt:
sinnti hann sinni plikt?
Þá mun of seint að sýta
sínum ber dómi að hlíta
þótt sál hafi á sandi byggt.
[...]
 

© Mynd: Gunnar S. Magnússon • © Sálmur: Þorgeir Rúnar Kjartansson 
 

© Þorgeir Rúnar Kjartansson: Myndlist; mynd birt við Sálm eftir Þorgeir Rúnar Kjartansson í Óður eilífðar 2008

Vjer þurfum að messa hressilega


Við lygnan sjó í leyni bjó
hin ljúfa ró.
Og heimskan dó en Drottin hló
sem dísin mjó.
Vjer fundum oss og fínan koss
– hið fagra hnoss.
og dýrðarblossar drupu í kross
við Dettifoss.

 
© Mynd og ljóð:
Þorgeir Rúnar Kjartansson

Um Sálmana

Þorgeir Rúnar Kjartansson orti Sálma í anda séra Hallgríms Péturssonar. Þeir skiptast í fjóra hluta, eru 31 erindi og mynda 4. kafla bókarinnar Óður eilífðar. Hér eru birt sýnishorn úr sálmunum með myndum Gunnars S. Magnússonar.

Þorgeir mun sennilega hafa ort Sálmana á tímabilinu 1991-1992. Þeir virðast hafa orðið til í glímu við mikið þunglyndi en um nánari tildrög er ekki vitað.

Í inngangi að Óði eilífðar ritar Guðmundur Andri Thorsson:

Það kann að sýnast furðulegt en þeir sálmar sem hér blasa við okkur eru sem sé ortir á síðasta áratug 20. aldar af ungum manni sem tók fullan þátt í menningarlegum hræringum síns tíma; þarf ekki annað en að minna á Júpiters, þessa einstæðu hljómsveit þar sem hann var með öðrum lífið og sálin og spilaði einhverja furðulega lífsháskablöndu af rokki og tröllasalsa með ívafi af djassi, Nino Rota og Viktori Silvester...

Þorgeir var hins vegar ekki bara saxófónleikari í Júpiters heldur líka sagnfræðingur og þar með handgenginn gömlum textum á borð við sálma Hallgríms Péturssonar. Fyrir honum hefur því sálmakveðskapur 17. aldar verið jafn lifandi og nærtækur menningarlegur veruleiki og saxófónleikur Dexters Gordon [...] hann nálgast bókmenntaarfinn að nokkru leyti eins og djassmaður myndi nálgast djassarfinn - allir djassmenn leika gamla standarda og leitast við að setja sitt persónulega svipmót á þá um leið, fara um þá sínum höndum og gera að sínum: þegar Þorgeir yrkir sálma í anda Hallgríms Péturssonar er hann því í svipuðum stellingum og til að mynda John Coltrane (annað átrúnaðargoð Þorgeirs) þegar hann spilar músík eftir Duke Ellington; ekki beinlínis  alveg hans músík en hann nálgast hana af alelfi og virðingu, fer inn í hana og gerir hana að sinni.

Þessi sálmakveðskapur er ekki bara eitthvert flipp. Þetta er ekki bara póstmódernískur leikur að úrsérgengnum formum. Þetta er dauðans alvara: það fer ekki á milli mála að hér er ort af brýnni þörf – hann er staddur í sálarháska [...] Hér stendur trúaður maður andspænis sínum Guði og leitar ásjár hjá honum í sínum nauðum."

Eins og endranær er þó stutt í húmorinn hjá Þorgeiri, jafnvel í háalvarlegum Sálmum. "Vjer þurfum að messa hressilega" heitir fjórði og síðasti sálmurinn.

Þar rífur skáldið sig "út úr hættinum og hugsun sálmsins sem var að festast í þunglamalegum hugrenningum um Kölska, Hrunadans og ófarnað, en en lætur skyndilega tvær oddhendur fjúka eins og nokkurs konar eftirþanka um ástina og Guð og náttúruöflin. Og vart verður andstæðan við Hallgrím skýrari en í hendingunni: "Og heimskan dó en Drottinn hló / sem dísin mjó". Ekki er Drottni hér aðeins líkt við mjóa dís, sem seint hefði hvarflað að Grími, heldur hlær Drottinn.

Hlátur Guðs: er hægt að enda sálm betur?" 

Guðmundur Andri Thorsson, bls. 35-7.