Sólaris - Pólaris - sýnishorn úr 3. ljóðakafla bókarinnar Óður eilífðar eftir Þorgeir Rúnar Kjartansson

© Erla Þórarinsdóttir: Myndlist; mynd birt við ljóð eftir Þorgeir Rúnar Kjartansson í bókinni Óður eilífðar 2008

ef hjörtun eru tvö


ef hjarta mitt er eitt og úti von
um eilífð djúpt í mjúku fangi þínu
þá geng ég áfram ennþá Kjartansson
og ann þér kyrrt í sorgarljóði mínu


ef hjörtun eru tvö og tímalaus
í tærri veröld sjúkra ástardrauma
og fá að lifa allt sem amor kaus
þá eru sjálfir himnarnir að krauma


ást! ég þrái innsta hvíslið þitt
eigra gegnum litla hjartað mitt

 

© Ljóð: Þorgeir Rúnar Kjartansson

© Mynd: Erla Þórarinsdóttir 

 

© Erla Þórarinsdóttir: Myndlist; mynd birt við ljóð eftir Þorgeir Rúnar Kjartansson í bókinni Óður eilífðar 2008

lausn


ég bíð þess nú að bráðni lítið hjarta
og blessun vonar færist yfir það
og inní hugann læðist ljósið bjarta
og lífið verði stórt og fullkomnað


af ást sem bjó í djúpum daga þinna
í djúpum nætur kveikti höfug tár
af ást sem bjó í djúpum daga minna
og dreyrði af í fjögur (þúsund) ár


ég bið þess nú að ástin fái form
og færi okkur logn á bakvið storm
og gefi okkur frið á bakvið fárið
svo framar svíði aldrei harmatárið


og loksins þegar sólin fær að syngja
og silfurbjöllum hamingjunnar klingja
þá göngum við um gáskafulla dali
og getum ekki hætt að vera á tali


ó kondu í fang mitt – fljúgðu með mér burt!
finnum saman ilm af töfrajurt

© Mynd: Erla Þórarinsdóttir 

© Ljóð: Þorgeir Rúnar Kjartansson

 


 

© Erla Þórarinsdóttir: Myndlist; mynd birt við ljóð eftir Þorgeir Rúnar Kjartansson í bókinni Óður eilífðar 2008

eilífur koss


allt sem ég þráði var eilífur koss
ástar sem myndekki dofna
víður og stór einsog fallandi foss
svo fengi ég blíður að sofna


í örmum sem lykju mig eilífðarþrá
í eilífu hamingjurökkri
svo fengég að vakna og fengi að sjá
fögnuð í rödd þinni klökkri


í augum þér las ég það líf sem er til
það ljós sem mitt angur þráði
og síðan er ástin þín allt sem ég vil
allt sem mig dreymdog ég þráði


ef kemurðu til mín ef kemurðu heit
með kossinn sem dreymdi þig forðum
þá tek ég á móti og vongóður veit
að vonir má segja með orðum


orðum sem hlýja orðum sem tjá
orðum sem fljúga um nætur
víst skal ég alltaf vera þér hjá
vina mín þegarðú grætur


og þegar þú brosir þá brosi ég við
og bráðna við snertingar þínar
og þegar þíns unaðar opnast hlið
þá ólga bænirnar mínar


ég snerti þig fast og ég snerti þig laust
og snerti þig allavega
og yndið sem þú í örmum mér naust
var eilíft og frítt af trega© Ljóð: Þorgeir Rúnar Kjartansson

© Mynd: Erla Þórarinsdóttir 


 

© Erla Þórarinsdóttir: Myndlist; mynd birt við ljóð eftir Þorgeir Rúnar Kjartansson í bókinni Óður eilífðar 2008

Myndlist


Myndirnar í Sólaris - Pólaris eru eftir Erlu Þórarinsdóttir, sjá sýnishorn hér til vinstri og að ofan, og Rúnu K. Tetzschner, sjá sýnishorn til hægri. 

Um ljóðin

Þorgeir Rúnar Kjartansson hreifst af konum og konur heilluðust af honum og í sampili skáldsins við þær hafa mörg ljóðin í Sólaris – Pólaris orðið til. Þau eru ort til kvenna eða um konur, fjalla um eilífðina og ástina. Í sinni fegurstu mynd birtist hún sem kærleikur og ljóðmælandi elskar allan heiminn í ástinni til hinnar útvöldu.

Þetta eru hádramatísk ljóð með djúpri og einlægri ástartjáningu. Það skiptir þó ekki öllu hvort ákveðnar konur urðu tilefni þess að skáldið orti hverju sinni. Ljóðin eru, eins og Þorgeir sjálfur lét um mælt, ort til "hinnar eilífu konu". Jafnframt fjalla þau um leitina að þessari konu og eru ort í ástarþrá.

Hér er þó líka ort um skuggahliðar ástarinnar, efa, afbrýðissemi, svik og ástarsorg. Þrátt fyrir nokkra örvæntingu er iðulega brugðið á glens: "Ef viltu mig ekki þá verð ég að taka því / og vona að ég hljóti þá ævilangt sumarfrí." Þorgeir upplifði áföll og sársauka á skammri ævi og orti um aðskilnað, söknuð, sorg og einmanaleika. Ljóð hans veita þó jafnframt huggun og von.
 

Von

Við djúpin blá er biðukolla ein
sem bíður þess að sundrast út í vindinn
og vonar að hún verði ekki of sein
og vonast til að svífa yfir tindinn.

Og útá götu gengur stúlkutetur
gráti næst – því forlög eru hörð
og endalaus var þessi vondi vetur
og verri en ekkert þessi gráa jörð.

En gráttu ekki – gleðin kann að vera
í göngufæri – rétt við næsta horn.
Og alltaf muntu blíðan ávöxt bera
til birtunnar þú fríða stúlkukorn.

Hvíta fiðrildi

Fljúgðu hvíta fiðrildi
finndu mig í nótt,
ég skal gefa þér gull í væng
svo getir þú sofið rótt.

Flúgðu hvíta fiðrildi,
finndu hvar ég er.
Bakvið heimsins harma
liggur hamurinn af mér.

Eittsinn var ég svanur, eittsinn var ég þú
bæði vorum við brunnklukkur – og bittinú!

Fljúgðu hvíta fiðrildi
í faðm sem bíður þín.
Svo verpirðu ást á vota kinn
og verður stúlkan mín.

Fljúgðu hvíta fiðrildi
finndu leið til mín.
Ég skal vera þér viskusteinn
og vísnakistan fín.

Fljúgðu lengi, fljúgðu hátt,
fljúgðu gegnum nótt og storm,
ég skal opna þér uppá gátt
allt frá stóru oní smátt:
allar víddir, alla liti, alla tóna, öll mín form.

 

© Þorgeir Rúnar Kjartansson

Rúna K. Tetzschner: Hvíta fiðrildi / myndlist; mynd birt í bókinni Óður eilífðar

Þulur og leikir barna

Ljóðið Hvíta fiðrildi vísar í hina alkunnu vísu Sveinbjörns Egilssonar, Kristín segir tíðindi sem oft er sungin: "Fljúga hvítu fiðrildin / fyrir utan glugga." Fleiri þulur og leikir barna hljóma raunar í gegnum þetta fallega ljóð.

Sum ljóðin í Sólaris - Pólaris líkjast vísum sem höfð hafa verið fyrir börnum. Þar má líka nefna Smá þulu: "Kata Kötu Katarín / er kát og spök og sæt og fín. / Ef Kata væri kisan mín / þá kitlaði ég hana í brjóstin sín [...]"

Ljóð um unga stúlku sem háttar sig og klæðir ber hins vegar með sér óm úr danskvæðum og vikivakakvæðum fyrri alda: "Og mínar eru vonirnar bljúgar sem blóm / sem bugtar sig í auðmýkt undir ljúfan skapadóm." Þessi ljóð eru full af gáska og gleði.

Í ástarljóðum Þorgeirs birtist óbifandi trú á mátt kærleikans og í titlinum Sólaris – Pólaris ríkir einnig vongleði og bjartsýni – bæði sólir og pólar rísa.

Sólarljóð

Segðu mér segðu mér sólin mín blíð
sussaðu á mig og vertu so fríð.
Nú eru búin hin bölvuðustu stríð
og blómin þau spretta um ókomna tíð.