Þæfð ull - Kamma Níelsdóttir Dalsgaard leikskólakennari, hönnuður og listamaður

Sölustaðir

Hafa má samband við Kömmu sjálfa í síma 6630605 eða senda póst til Ljóss á jörð á netfangið runakt@hive.is.

Kamma Níelsdóttir Dalsgaard er leikskólakennari að mennt og vann í áratugi að skapandi starfi með börnum. Hún er einnig hönnuður og listamaður. Á undanförnum árum hefur hún sérhæft sig í þæfðri ull. Sjöl, slæður, treflar, handstúkur, húfur, hattar, töskur og pils, - allt kemur þetta úr ullarlistasmiðju Kömmu. Þetta eru fallegar og hlýjar flíkur sem gaman er að skreyta sig með.

Hinir frumlegu ullarskúlptúrar sem hún gerir hafa visst nytjagildi, geta verið tehettur eða topphúfur, eftir því hvað fólk sjálft kýs. En tehetturnar og húfurnar minna á eldfjöll, jökla og önnur íslensk björg.

Þetta er vandað íslenskt listhandverk af bestu sort. Efnið sem notast er við, íslensk ull og fiskiroð, gerir það enn þjóðlegra og innblásturinn er sóttur til íslenskrar náttúru.

Kamma er fædd og uppalin í Danmörku þar sem náttúran er mildari og frjósamari en hefur búið í landi elda og ísa meirihluta ævinnar eða 47 ár. Ísland og hin stórbrotna náttúra þess á því sterkari ítök henni.

Kamma stundaði leikskólakennaranám í Fröbelhøjskolen í Kaupmannahöfn árin 1959-1961 og framhaldsnám í stjórnun hjá Fósturskóla Íslands 1995-1996.

Hún starfaði á ýmsum leikskólum í Kaupmannahöfn en eftir að hún flutti til Íslands árið 1965 stofnaði hún listasmiðju fyrir börn, "Kömmuskóla", sem hún rak á heimili sínu í Furulundi í Garðabæ tímabilin 1971-1978 og 1983-1985 ". Á þeim tíma fól Kömmuskóli í sér merkt frumkvöðlastarf þar sem markvisst var leitast við að örva börnin til listrænnar og sjálfstæðrar sköpunar.

Kamma var leikskólakennari á leikskólanum Bæjarbóli í Garðabæ árin 1978-1985 og leikskólastjóri Kirkjubóls í sama bæjarfélagi, frá því sá leikskóli var stofnaður árið 1985 til ársins 2007.

Þegar Kamma lauk störfum hjá Garðabæ beindi hún sköpun sinni í nýjan farveg, hóf að skapa eigið listhandverk og rekur nú eigin ullarlistasmiðju.

Eftir að hafa umvafið æsku Garðabæjar alúð og umhyggju í áratugi gefur hún nú samferðafólki sínu hlýju með fallegri og nytsamri listsköpun, - með margbreytilegri þæfingu litríkrar ullar.