Þar sem það er séð - sýnishorn úr 5. ljóðakafla bókarinnar Óður eilífðar eftir Þorgeir Rúnar Kjartansson

af lindum ber að ausa


af lindum ber að ausa!
til þess fæddust þær!

langt aftur í sandkassanum
er ausið yfir mig ánamöðkum plastskóflum
sandkornin festast í augum
fínir bílar bremsa með lífsbjörg sumra
og börn eru misjöfn

læra flest að lesa
en fæst að unna

og grimmdin skapar andlitsdrætti
jafn ákveðið
og hamingjusnauð heimili
forstjórafullvissuna og heimska afbrýði
jeppahjartað umlukið svörtum kransæðum
og fær aldrei að sjá væntanlega kransa
sem þó ber ei að afþakka
sýna – já sýna samt að allt sé gott
að ekki sé talað um rétt
en er talað um sama rétt?

að lindum ber að gæta
og yfir þeim er stundum stjarna
af þeim má ausa
eitt sinn skreið ég upp úr sandkassa
kraflaði mig útá grasið
og fann þar ilm
– andaði að mér
pústaði frá mér –
ilmurinn lenti í árekstri við bílinn
og bílstjórinn í árekstri við ilminn
skreið ljúgandi útúr flakinu
og fyrirskipaði malbikun yfir grasið

börn eru sannarlega misjöfn

en það var ekki fyrr en ég fann þig
John minn Coltrane

að ég fann inná
verðleysi peninganna
kraftleysi stórhýsanna
vonleysi forstjóranna

víðerni stjarnanna

Menn

Menn skiptast í tvennt: harmavalda og gæfusmiði. Harmavaldarnir eru ágengir metnaðarfullir og stjórnsamir. Gæfusmiðirnir eru fljölbreytilegir og hógværir. Nánar þarf ekki að lýsa þeim. Ljósti af einhverri ástæðu saman harmavaldi og gæfusmiði þá hugsar gæfusmiðurinn sem svo: Eins og Platón lít ég svo á að illskárra sé að vera kúgaður en að kúga. Íslendingar orðuðu þetta fyrrum svofelldlega: Sá vægir sem vitið hefur meira.