Veðraspáin - sýnishorn úr 1. ljóðakafla bókarinnar Óður eilífðar eftir Þorgeir Rúnar Kjartansson

allt finnst oss betra en bleyðunnar kelda
örvænting skárri en skapleysið slétta og fellda

já örvænting skárri en yfirborðsleikur í logni
samkvæmt fyrirmælum frá æðstaráði smásálna,
tíðarandagift frekra meðalmenna, riddara uppvöðslunnar, tilfinningadoðans, útrásar- og ástarsnobbs, gjamms og gulra hugsana...

© Þorgeir Rúnar Kjartansson

Við megum vera örvæntingarfull en ekki huglaus. Textar Þorgeirs Rúnars Kjartanssonar hafa sjaldan eða aldrei átt betur við enda deildi hann mjög á auðvald og spillingu. Í Veðraspánni, áhrifaríkri heimsádeilu, sem ber keim af fornum galdra- eða særingakveðskap, bregður ljóðmælandi sér í gervi spámanns eða galdramanns.

Í inngangi að Óði eilífðar skrifar ritstjórinn Rúna K. Tetzschner:

"Veðraspámaðurinn bregður upp dökkri mynd af íslenskum samtíma sem hann dregur sundur og saman í háði. Þetta er heimur "halts kjaftæðis" og intellektúal óráðs, uppfullur af "lúinni lygi / og þreyttri þráhyggju / og smárri smáhyggju". [...] Heimurinn er skammaður eins og venja er í heimsádeilukvæðum en ljóðmælandi lætur þó ekki ádeiluna nægja heldur eys úr sér fjölskrúðugustu fúkyrðum og formælingum. [...] Spáin á að hrista upp í fólki, vekja það til umhugsunar og aðgerða. [...] með því að hlaða upp svívirðingum nást fram sefjunar- eða galdraáhrif" – "heimsádeilan er mögnuð upp úr öllu valdi með tungumáli níðkveðskapar og særinga [...]

Saman við ádeiluna fléttast spá um yfirvofandi vá og heimsendi og spámaðurinn leitast við að vekja fólk til vitundar um lygarnar sem viðgangast í samfélaginu og fá það til að taka upp málstað sannleikans og mótmæla: "Trúirðu þá á falska flærðarhljóma? / Finnurðu ekki dagsins bergmál óma? [...] Trúirðu á verndað veisluskvaldur? Veistu ekki um ópsins hvítagaldur?" Hann hvetur til byltingar og tafarlausra aðgerða.

Í Veðraspánni kemur fram ævagömul hugmynd um áhrifamátt orðanna, en að fornu var því trúað að hægt væri að breyta gangi mála í heiminum með tungumálinu einu saman.

Galdraheimsádeila

Veðraspáin á brýnt erindi til samtímans og kannski engin tilviljun að þetta verk kom út í hruninu á Íslandi.

Við útkomu bókarinnar 6. nóvember 2008 var haldin Byltingarkennd hátíðardagskrá í Iðnó. Galdrað var orðum og Veðraspáin flutt. Flytjendur voru hljómsveitin Hópreið lemúranna, Kór byltingarinnar, Rúnar Guðbrandsson leikari og Marta Guðrún Halldórsdóttir sópransöngkona.

Eftir að hafa "komið til helvítis og skyggnst þar um" fann Veðraspámaðurinn strandað skip og "meðan skipið "morknar hægt á sandrifjunum" í niðurlagi [...] spánnar "slá mýsnar upp veislu / og skála kampakátar í sjóreknu kampavíni". Jafnframt stendur til að "hvellsteikja [...] alla heimsbyggðina". Sníkjudýrin hafa náð völdum og kjarnorkustyrjöld vofir yfir.

Veðraspáin endar með skelfingarveini:

ó þú skiplausa þjóð
í höndum vandalausra!
ó þú skiplausa þjóð

Óður eilífðar, bls. 17-23.